Von er á endurgerð á teiknimynd Bítlanna, Yellow Submarine eða Gula kafbátnum, sem gerð var árið 1968 í tengslum við samnefnda plötu fjórmenninganna. Það er Disney sem mun framleiða myndina, og verður hún í þrívídd. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að 16 Bítlalög muni hljóma í myndinni, auk þess sem brot úr upprunalegu myndinni komi einnig fyrir. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.
Leikstjóri myndarinnar verður ekki af verri endanum, en sá heitir Robert Zemeckis og á að baki myndir á borð við Back to the Future 1-3, Forrest Gump, What Lies Beneath, Who Framed Roger Rabbit og The Polar Express, en tæknin sem notuð var við gerð síðastnefndu myndarinnar verður einnig notuð við gerð nýju Yellow Submarine-myndarinnar.