Múgur og margmenni safnaðist saman í kringum skosku söngkonuna Susan Boyle, sem varð heimsfræg er hún tók þátt í skemmtiþættinum Britain's Got Talent, við komuna til Los Angeles. Boyle þreytir nú frumraun sína sem söngvari í Bandaríkjunum.
Rúmlega 1.000 manns biðu eftir henni á LAX flugvellinum þegar Boyle lenti í borginni. Hún mun taka þátt í lokaþætti America's Got Talent, sem fram fer þa miðvikudag. Þar mun hún syngja Rolling Stone slagarann „Wild Horses“. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Boyle kom öllum á óvart þegar hún varð stjarna, nánast á einni nóttu, er hún tók þátt í skemmtiþættinum fyrr á þessu ári. Hún hafnaði í öðru sæti.
Breiðskífa er væntanleg frá henni í lok nóvember sem heitir eftir laginu sem hún söng svo eftirminnilega „I Dreamed a Dream“.