„Við þurftum að skrifa undir margar skýrslur þar sem við lofuðum að rjúfa ekki innsiglið fyrr en á tilskildum tíma,“ sagði Elsa María Ólafsdóttir, verslunarstjóri í Eymundsson við Skólavörðustíg, en búðin var opin lengur en venjulega í gær svo að aðdáendur Browns gætu náð sér í næturlesningu. „Það er hægt að lögsækja okkur ef við opnum kassana fyrr,“ sagði hún.
Hinn bandaríski útgefandi Dans Browns mun prenta 6,5 milljónir eintaka af bókinni til að byrja með en það er stærsta fyrsta upplag af nokkurri bók hingað til. Vinsælasta bók Browns, Da Vinci-lykillinn, hefur selst í meira en 82 milljónum eintaka um allan heim. Íslenska útgáfan seldist í 25.000 eintökum.
„Ég fæ mín eintök send frá umboðsmanni Browns í hraðpósti á morgun en ég fékk líka lykilorð í dag og á miðnætti get ég nálgast bókina í pdf-skjali,“ sagði Guðrún Vilmundardóttir hjá Bjarti, útgefanda Browns hér á landi. Þá hefja einnig lesturinn þrír þýðendur, sem munu vinna saman að íslenskri gerð bókarinnar, þau Ásdís Guðnadóttir, Ingunn Snædal og Jón Hallur Stefánsson. „Við þýðendurnir byrjum því að lesa í nótt af tölvuskjánum,“ sagði Guðrún. Fyrirhugað er að Týnda táknið komi út á íslensku í byrjun nóvember.