Breski leikarinn og grínistinn Eddie Izzard lauk í gær að hlaupa umhverfis Bretland. Alls hljóp Izzard 1770 km á 51 degi sem jafngildir nærri 43 maraþonhlaupum. Með þessu móti safnaði Izzard 200 þúsund pundum til góðgerðarmála.
„Mér líður mjög vel," sagði Izzard þegar hann kom á fund Gordons Browns, forsætisráðherra í dag í Downingstræti í Lundúnum. „Mér er illt í fótunum, öllum líkamanum. Ég er dauðþreyttur. Táneglurnar eru horfnar og er með blöðrur og annað þessháttar en það er einskonar vísindaskáldsaga að mér hafi tekist að ljúka hlaupinu."
Izzard, sem er 47 ára, er ekki þekktur fyrir frammistöðu í íþróttum en hann er vinsæll gamanleikari og hefur einnig leikið í Hollywoodmyndum. Hann æfði sig í fimm vikur áður en hann lagði af stað. Venjulega er hlaupurum ráðlagt að taka sér að minnsta kosti 3 vikna hvíld milli maraþonhlaupa.
Með í förinni um Bretland var ísbíll og íþróttasálfræðingur.
Izzard hefur lýst því yfir, að hann hafi áhuga á að hella sér í bresk stjórnmál, þó ekki næsta áratuginn.