Vinsældir Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu hafa dvínað mjög að undanförnu ef marka má niðurstöður könnunar sem ítalska dagblaðið La Repubblica birtir í dag. Samkvæmt niðurstöðunum nýtur Berlusconi aðeins fylgis 47% landsmanna, borið saman við 62% í október í fyrra.
Öll spjót hafa staðið á ítalska forsætisráðherranum að undanförnu og þykir ímynd hans hafa beðið hnekki. Berlusconi hefur sætt gagnrýni fyrir skort á lýðræði í ríkisstjórn sinni og þá hafa persónuleg hneykslismál, tengd kvenhylli forsætisráðherrans, tekið drjúgan tíma hjá Berlusconi.
Samkvæmt könnun La Repubblica nýtur hann nú hylli meðal 47% Ítala. Könnunin var gerð dagana 11. til 13. september. Hringt var í 1.000 manns og þeir spurðir um afstöðuna til Berlusconis.