Mary Travers, söngkonan í gamalkunna þjóðlagatríóinu Peter, Paul and Mary, er látin 72 ára gömul. Tríóið gerði vinsæl lög á borð við „Blowin' in the Wind,“ „If I Had a Hammer“ og „Where Have All the Flowers Gone?“
Mary Travers andaðist á sjúkrahúsi í Connecticut í Bandaríkjunum í gær. Hún fékk hvítblæði fyrir nokkrum árum og fór í mergflutning í kjölfarið. Banamein hennar voru fylgikvillar lyfjameðferðar sem hún gekkst undir síðar.
Margir minnast hinnar ljóshærðu Mary Travers sem steig á svið með skeggjuðum félögum sínum í tríóinu. Þau voru rödd ungs fólks á uppreisnartímum gegn ríkjandi gildum og voru mjög áberandi í tónlist 7. áratugar síðustu aldar. Nokkur laga þeirra enduðu í efstu sætum vinsældalista.