Þann 29. ágúst síðastliðinn voru hjónin Guðni Páll Sæmundsson og Bryndís Geirsdóttir gefin saman í Reykholtskirkju. Athöfnin fór fram eftir Grallaranum og voru hjónin klædd eftir gamalli hefð. Sr. Geir Waage gaf hjónin saman og fylgt var gömlum íslenskum brúðkaupssiðum þar sem brúðhjónin mætast á miðju kirkjugólfi, bindast heitum sínum og setjast svo saman á brúðarbekk, hlýða lestrum og fá fyrirbæn og blessun.
Móðir brúðgumans, Ólafía Margrét Magnúsdóttir, tók að sér að sauma brúðarklæðin. Guminn var klæddur í hefðbundin 18. aldar föt, hnésíðar buxur, handprjónaða sokka með spjaldofnum böndum, tvíhneppt vesti og jakka. Brúðurin var klædd faldbúningi sem mun hafa verið í tísku á 17. öld. Það tók Ólafíu þrjú ár að vinna klæðin enda mikil nákvæmnisvinna.
Aðspurð segist Ólafía sjálf hafa klæðst öllu nútímalegri fötum við giftinguna. „Ég á sjálf upphlut en var ekki í honum þar sem mér fannst að þau ættu að njóta sín í sínum búningum.“ Klæðin munu vera til sýnis í Reykolti næstu misseri.