Fyrir tveimur árum, eða í nóvember 2007, var Önnu Sigurrós Steinarsdóttur, nemanda í Langholtsskóla, farið að leiðast biðin eftir nýrri skólalóð svo mikið að hún hringdi í Dag B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóra.
„Hann tók þessu nú bara vel. Mig minnir að framkvæmdir hafi hafist fljótlega,“ segir Anna sem í gær fagnaði því með skólasystkinum sínum að komin væri ný skólalóð með fjölda leiktækja auk sparkvallar og körfuboltavallar.
Anna, sem nú er í 9. bekk, kveðst helst fara í fótbolta á nýju skólalóðinni. „En ég á tvö yngri systkini sem geta leikið sér í rennibrautum og öðrum tækjum. Ég á systur í 4. bekk og bróður sem byrjar í skólanum á næsta ári.“
Áður en Anna hringdi í borgarstjórann höfðu foreldraráð og foreldrafélag skólans safnað undirskriftum um haustið til þess að knýja á um lagfæringar á skólalóðinni sem lengi hafði verið óviðunandi sem leiksvæði barna.