„Það var raddprófun í gær [fyrradag], og ég komst inn í kórinn,“ segir Magnús Hlynur Hreiðarsson, blaðamaður og fréttaritari Sjónvarpsins á Suðurlandi.
„Ég fer í annan tenór,“ bætir hann við og upplýsir að aldrei hafi fleiri nýliðar mætt á fyrstu söngæfingu Karlakórs Selfoss. „Við vorum 14 nýir og allir komust inn, við vorum fleiri en sextíu á æfingu, þvílíkt stuð,“ segir hann og hlær innilega. Magnús Hlynur hefur gengið með draum um að vera í kórnum í tíu ár. Hann fékk leyfisbréf um að fara í kórinn frá konunni sinni í fertugsafmælisgjöf. Hún hafði staðið gegn kórástundun Magnúsar, sökum þess hversu önnum kafinn maðurinn er.