Hin goðsagnakennda „miðnæturmynd“ The Rocky Horror Picture Show verður sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í kvöld. Myndin verður sýnd af 35 mm filmu til að áhorfendur geti fengið réttu myndgæðin beint í æð.
Eftirspurn eftir miðum hefur verið mun meiri en skipuleggjendur RIFF bjuggust við, en upphaflega stóð til að sýna myndina í sal þrjú í Háskólabíó. Í ljósi hinnar miklu eftirspurnar hefur hins vegar verið ákveðið að færa hana í stóra salinn þar sem sýning hefst kl. 23 í kvöld.
Leikarar úr samnefndri uppsetningu Leikfélags Akureyrar mæta á svæðið áður en sýning myndarinnar hefst og munu þeir gera sitt til að koma fólki í réttu stemninguna.
Margt fleira spennandi verður á dagskrá RIFF í kvöld. Hinn bandaríski Jesse Hartman sem heimsfrumsýndi mynd sína, The House of Satisfaction, á RIFF lætur ekki þar við sitja heldur tekur einnig þátt í tónleikaröðinni Réttir sem stendur nú yfir og spilar þar eigin tónlist, meðal annars þá sem hljómaði í myndinni. Tónleikarnir verða í Batteríinu við Naustina, milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu, og hefjast kl. 21.