Leikritið Þú ert hér er sýnt um helgina í leikhúsinu H3 í Berlín og útlit er fyrir að það fari víðar um Evrópu á næstu mánuðum. „Mikill áhugi hefur verið á sýningunni og margar leiklistarhátíðir hafa sýnt áhuga, meðal annars í Belgíu, Englandi og Þýskalandi, en það hversu víða við förum veltur á efnahag þessara landa, þar sem um alla Evrópu er verið að skera niður framlög til menningarmála,“ segir Jón Páll Eyjólfsson, sem gerði leikritið ásamt Jóni Atla Jónassyni og Halli Ingólfssyni, en það var frumsýnt í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári.
Þú ert hér fjallar um aðdraganda hrunsins. „En hún hefur almenna skírskotun, einmitt af því að við ákváðum að gera ekki revíu um einstaka menn, heldur fjalla um orðræðu og hugmyndafræði sem bíður skipbrot,“ segir hann. „Ég verð að viðurkenna, að ég bar þann draum í brjósti að leikritið yrði úrelt áður en kæmi að frumsýningu – að við myndum sitja þarna eins og kjánar. Ég vonaði það heitt og innilega. En svo sýndum við leikritið aftur fyrir tveimur vikum og fólk kom til okkar og sagði: „Þið verðið að halda áfram að sýna það.“ Og ég hugsaði með mér: „Guð minn góður, það hefur raunverulega ekkert gerst, orðræðan hefur ekkert þokast áfram.“