Jacques Chirac, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur neyðst til að gefa eftirlætishund sinn, Sumo, frá sér. Seppi hefur átt erfiðara með að jafna sig við flutninginn úr Elyseehöllu en húsbóndinn.
Þegar hann hafði bitið hann þriðja sinni fannst Chirac nóg komið og gaf Sumo frá sér. Síðasta atlaga kjölturakkans var með þeim hætti að hann glefsaði í kvið forsetans fyrrverandi.
Eiginkona Chiracs, Bernadette, segir við blaðið Le Monde, að Sumo hafi þjáðst af þunglyndi allar götur frá því hjónin fluttu úr víðfeðmri höllinni í tiltölulega litla íbúð sína við Quai Voltaire í París.
„Hann jafnaði sig aldrei á flutningnum úr Elysee og varð fljótt þunglyndur í lítilli íbúðinni,“ segir frú Bernadette. Dugðu þunglyndislyf hvergi og fór svo, að eftir þriðja bitið var Sumo gerður útlægur úr stórborginni og gefinn út í sveit. Hermt er að hann uni sér vel á bóndabæ í héraðinu Seine-et-Marne.
Chirac var fluttur á spítala í janúar sl. eftir að Sumo læsti skolti sínum í ótilgreindan líkamshluta forsetans fyrrverandi. Þriðja atlagan kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, að sögn konu hans. Lá hann hinn rólegasti við fætur hans er hann reis skyndilega upp á afturlappirnar, stökk í kjöltu forsetans og beit hann í kviðinn.
„Ég varð felmtri slegin, því hann var bitinn til blóðs, með þessum litlu tönnum. Þetta var hræðilegt, hann var snælduvitlaus og gerði sig líklegan til að bíta aftur,“ sagði frú Bernadette um atlögu kjölturakkans litla.