Angelina Jolie og Brad Pitt eru nú stödd í Damaskus í Sýrlandi á vegum Sameinuðu þjóðanna til að vekja athygli á hundruðum þúsunda íraskra flóttamanna sem þar búa. Þau heimsóttu á föstudag tvær íraskar fjölskyldur sem búa í einu fátækasta hverfi borgarinnar og hittu þar að auki forsetann Bashar al-Assad og eiginkonu hans.
„Flestir írösku flóttamannanna geta ekki snúið aftur til Írak vegna áfallsins sem þeir hafa upplifað þar, óvissunnar sem fylgir komandi kosningum, öryggismála og skorts á grunnþjónustu. Þeir þurfa því á áframhaldandi stuðningi alþjóðasamfélagsins að halda,“ sagði Jolie. „Það er ljóst að íbúar Sýrlands hafa alltaf sýnt fólki í neyð mikla gestrisni, þrátt fyrir erfiðleikana sem steðja að þeim sjálfum.“