Bandaríska leikkonan Julia Roberts vinnur þessa dagana að kvikmynd í Indlandi. Það kom því engum á óvart að hún skyldi heimsækja grafhýsið fræga Taj Mahal, sem er í borginni Agra.
Þeir sem fylgdu leikkonunni að grafhýsinu í birtingu dag einn í vikunni, sögðu hana hafa verið „orðlausa“, að hún hefði „hreinlega misst málið“ yfir fegurð byggingarinnar. Taj Mahal er iðulega kallað helsta musteri ástarinnar, og er eitt af sjö undrum veraldar, en þar jarðsetti mógúlkeisarinn Shah Jahan eiginkonu sína Mumtaj Mahal. Margir sem þangað koma segja þetta fegurstu byggingu heims, hið fullkomna listaverk.
Roberts er annars við kvikmyndaleik í Patudi, skammt fyrir utan Delhi, en kvikmyndin „Borða, biðja, elska“ er byggð á minningum rithöfundarins Elizabeth Gilbert sem einsetti sér að borða á Ítalíu, biðja á Indlandi og elska í Indónesíu.
Meðan á kvikmyndatökunum stendur býr Roberts á heimili Bollywoodstjörnunnar Saif Ali Khan en þar er hluti myndarinnar einnig tekinn upp.