Breska blaðið Mail on Sunday hefur samþykkt að greiða söngkonunni Madonnu skaðabætur vegna ljósmynda, sem blaðið birti úr brúðkaupi hennar og Guy Ritchie. Blaðið var fundið sekt um að hafa brotið gegn friðhelgi Madonnu og brotið höfundarrétt með myndbirtingunni.
Dómari í London komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að blaðið hefði gerst brotlegt með því að birta 11 ljósmyndir úr brúðkaupinu, sem fór fram árið 2000.
Innanhúsarkitekt afritaði myndirnar með leynd á heimili söngkonunnar í Beverly Hills, að því er segir á vef BBC.
Madonna hyggst gefa skaðabæturnar til góðgerðarsamtakanna Raising Malawi. Ekki liggur fyrir hve há fjárhæðin er.
Hún var ekki viðstödd þegar sátt náðist málinu við æðsta rétt í London. Hún hafði farið fram á að sér yrðu greiddar rúmar fimm milljónir punda í skaðabætur, en höfðaði málið á hendur Associated Newspapers.
The Mail on Sunday hefur hins vegar neitað að hafa gert nokkuð rangt. Það greiddi 5000 pund fyrir myndirnar, sem voru teknar við Skibo kastala í Skotlandi 22. desember árið 2000. Myndirnar voru svo birtar 19. október í fyrra, aðeins nokkrum dögum eftir að Madonna greindi frá því að hún og Ritchie ætluðu að skilja.
Fram að því höfðu engar myndir verið birtar úr brúðkaupinu.