„Þetta er stærsta verkefni mitt til þessa, ekki spurning," segir Baltasar Kormákur, leikstjóri, um væntanlega endurgerð kvikmyndarinnar Reykjavík-Rotterdam í Hollywood. „Þetta er einfaldlega af annarri stærðargráðu en það sem ég hef fengist við til þessa."
Bandaríski leikarinn Mark Wahlberg mun leika aðalhlutverkið, sama hlutverk og Baltasar lék í íslensku myndinni. Óskar Jónasson leikstýrði myndinni en Baltasar framleiddi upprunalegu myndina, auk þess að fara með aðalhlutverkið.
Baltasar, sem lýsir Mark Wahlberg sem hinum ljúfasta í samtali við Morgunblaðið, var í New Orleans í síðustu viku að kanna mögulega tökustaðiÞað er framleiðslufyrirtækið Working Title sem keypti réttinn.
„Að mínu mati er þetta fyrirtæki að gera langflottustu hlutina í þessum stóru myndum í dag, en það hefur staðið að öllum myndum Cohen bræðra t.a.m. og svo má nefna myndir eins og Dead Man Walking og Bridget Jones. Vinsælar myndir, en með vigt líka, og það er leið sem mér hugnast," segir Baltasar, og er auðheyranlega spenntur.
Ítarlegt viðtal við Baltasar vegna þessa verður að finna í Morgunblaðinu á morgun.