Rokksveitirnar Pearl Jam og REM hafa tekið höndum saman með fleiri tónlistarmönnum sem styðja Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í því að loka Guantanamo-fangabúðum Bandaríkjahers á Kúbu.
Auk tónlistarmannanna styðja fyrrum herforingjar herferðina, sem kallast The National Campaign to Close Guantanamo. Henni var hleypt af stokkunum í fyrradag.
Margir listamannanna eru afar ósáttir við að herinn hafi notað þeirra tónlist við yfirheyrslur í fangabúðunum.
George Little, talsmaður bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), segir að tónlistin hafi aðeins verið notuð í öryggisskyni, en ekki til að refsa föngum.
„Undanfarin 30 ár höfum við stutt friðar- og mannréttindamál. Að fá þær fréttir að tónlist vina okkar hafi verið notuð sem pyntingartól, án þeirra samþykki eða vitundar, er hræðilegt. Þetta er and-amerískt, punktur,“ segir í yfirlýsingu frá REM.
Meðal annarra listamanna sem styðja málefnið eru Jackson Browne, Steve Earle, Roseanne Cash, Billy Bragg, Bonnie Raitt og rokkararnir í Rage Against The Machine.
Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna í Washington hefur farið fram á það fyrir hönd listamannanna að fá í hendur leyniskýrslur, þar sem fjallað er um það hvernig hávær tónlist sé notuð við yfirheyrslur.