Bjóða sambýliskonu Stiegs Larssons fé

Stieg Larsson.
Stieg Larsson.

Faðir og bróðir sænska blaðamannsins og rithöfundarins Stiegs Larssons, segjast í viðtali við sænskt blað í dag vilja bjóða sambýliskonu Larssons 20 milljónir sænskra króna, jafnvirði 356 milljóna íslenskra króna, ef það verði til þess að setja niður deilur milli þeirra um arfleifð rithöfundarins.

Stieg Larsson lést árið 2004 og lét þá eftir sig handrit að þremur bókum, sem síðan hafa farið sigurför um heiminn. Hann gerði ekki gilda erfðaskrá og því eru Erland, 74 ára gamall faðir Stieg, og Joakim, 51 árs gamall bróðir hans, einu lögerfingjarnir. Eva Gabrielsson, sambýliskona Stieg í 30 ár, á engan erfðarétt og þau eignuðust ekki börn.

Bankareikningar feðganna hafa gildnað hratt síðustu árin vegna höfundaréttargreiðslna fyrir bækurnar þrjár og kvikmyndir, sem gerðar hafa verið eftir þeim. Líklegt er að einnig verði gerðar Hollywood-myndir eftir bókunum. Hafa þeir Erlend og Joakim sætt harðri gagnrýni í Svíþjóð fyrir ósveigjanleika gagnvart sambýliskonunni.

Nú segjast feðgarnir í viðtali við Svenska Dagbladet vera orðnir þreyttir á að leika hlutverk skúrkanna. Þeir hafi alltaf viljað ná samkomulagi við Gabrielsson en hún hafi hins vegar ekki viljað tala við þá. 

„Nú eru næstum fimm ár síðan Stieg dó. Við höfum beðið eftir því að Eva hefði samband en við getum ekki beðið í fimm ár í viðbót. Nú verðum við að halda áfram veginn," hefur blaðið eftir Joakim.

Alls hafa selst um 20 milljónir eintaka af bókunum þremur í Evrópu og á síðasta ári var Larsson sá höfundur, sem seldi næst flestar bækur í heiminum. Áætlað er að höfundarréttargreiðslur vegna bókanna nemi jafnvirði um 2,3 milljarða íslenskra króna og búast megi við álíka upphæð til viðbótar vegna þeirra bóka sem eiga eftir að seljast á næstu árum. Að auki koma greiðslur vegna kvikmyndanna. 

Feðgarnir segjast ekki hafa notað þessa peninga. „Við ökum enn í sömu bílunum og búum í sömu húsunum," segja þeir við blaðið.  

Eva Gabrielsson hefur í viðtölum gagnrýnt feðgana og sagt, að þeir hafi aldrei verið hluti af lífi þeirra Stiegs. Því vísa feðgarnir á bug og segja að Erland hafi m.a. hvatt hann til að skrifa skáldsögur. Þeir segja einnig, að Stieg hafi skrifað sakamálasögur sínar að hluta til í sumarhúsi fjölskyldunnar í Västerbotten og að Erland hafi fengið að lesa hluta af handritunum.

Feðgarnir segja við Svenska Dagbladet, að þeir hafi haft veður af því fljótlega eftir lát Stiegs, að Eva ætlaði að stefna þeim fyrir rétt vegna erfðamálanna. Þess vegna hafi þeir beðið með að gera henni tilboð. „Áttum við að sitja og greiða fyrir réttarhöld gegn okkur sjálfum?" spyr Joakim. „Hún hefði átt að tala við okkur. Þá hefði allt verið einfaldara."  

Þeir segjast einnig vilja taka ákvarðanir í samráði við Evu Gabrielsson um fjárframlög til ýmissa mála sem Larsson var annt um. Þess vegna hafi þeir ákveðið að gera henni tilboð.  

„Hún var hluti af lífi Stiegs. Hún á að geta notið fjárhagslegs öryggis. Við getum gefið henni 20 milljónir," segir Joakim við blaðið og bætir við að þessu fylgi engin skilyrði. „Hún þarf bara að hringja og segja já takk."

Hann segir, að lögmaður feðganna muni í dag hafa samband við lögmann Gabrielsson vegna þessa.

Grein Svenska Dagbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar