Í hita leiksins kviknaði í

Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson í hlutverkum sínum.
Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson í hlutverkum sínum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Leikhúsgestir urðu svo sannarlega fyrir óvæntri uppákomu þegar kviknaði í undir sviðinu þar sem verið var að leika sýninguna Harry og Heimi á Litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi.  Þegar Örn Árnason tilkynnti áhorfendum hvers kyns var héldu margir að þetta væri bara hluti af leiknum, enda leikararnir stöðugt að bregða sér úr og í hlutverk og tala beint til áhorfenda. 

„Það vildi svo til að við vorum einmitt að leika atriði þar sem verður mikill eldsvoði í verkinu. Þá veittum við því athygli að það var allt í einu miklu meiri reykur á sviðinu heldur en við áttum von á og önnur lykt af honum. Þannig að það reyndist ekki allt vera með felldu og meira en gamla góða reykvélin okkar sem var að verki,“ segir Karl Ágúst Úlfsson sem leikur í sýningunni ásamt Erni Árnasyni og Sigurði Sigurjónssyni. 

Þegar þeir félagar áttuðu sig hvers kyns var reyndu þeir eðlilega að vara áhorfendur við og fá þá til að rýma salinn en það gekk ekki áreynslulaust fyrir sig.

„Sýningin er uppfull af alls kyns uppbrotum þar sem við förum út úr hlutverkum okkar og verðum allt í einu við sjálfir og hættum að leika og byrjum svo aftur. Þegar við báðum fólk vinsamlegast um að yfirgefa salinn þá tók náttúrlega enginn mark á okkur og fólk hélt að þetta væri bara hluti af sýningunni.

Örn gekk fram á sviðið og bað fólk um að yfirgefa salinn og þá var bara hlegið. Þegar hann sagði: „Góðir áhorfendur það er Örn sem talar. Það er kviknað í,“ þá var hlegið ennþá hærra. Svo fór nú einn og einn að átta sig á því að það væri alvara á ferðum. Samt sem áður þegar við vorum að vísa fólki út úr salnum þá var fólk enn að spyrja okkur hvort þetta væri ekki örugglega grín,“ segir Karl Ágúst og tekur fram að allir hafi sökum þessa haldið ró sinni. 

Aðspurður segir hann uppákomuna hafa orðið eftir hlé þegar um 15 mínútur voru eftir af sýningunni. Þegar búið var að reykræsta salinn og ganga úr skugga um að allt væru öruggt var áhorfendum boðið aftur inn í salinn og sýningin kláruð. Spurður hvort ekki sé erfitt að stökkva inn og út úr sýningu með þessum hætti svarar Karl Ágúst: 

„Maður hefði haldið að væri erfitt að stoppa sýningu og byrja aftur. Við vorum meira að segja á báðum áttum hvort við ættum að halda áfram og klára sýninguna, en það reyndist hins vegar mjög auðvelt og salurinn var með okkur frá því við byrjuðum aftur og allt til enda.“

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, sagðist afskaplega ánægður með hversu hratt og örugglega sviðsstjóri Litla sviðsins og sviðsfólk hafi brugðist við, enda hafi eldurinn verið slökktur á örskotsstundu. 

„Þetta var ekki mikill eldur og vel viðráðanlegur. Menn taka hins vegar engar áhættu og því var hárrétt brugðist við þegar salurinn var rýmdur. Það hafði farið neisti í sag undir sviðinu,“ segir Magnús Geir og tekur fram að ekki hafi orðið neinar skemmdir á leikhúsinu vegna þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup