Haifa Wehbe, sem er Líbani og ein vinsælasta poppsöngkona Miðausturlanda, hefur reitt svarta Egypta, sem flestir eru af stofni Núbíumanna, til reiði með söngtexta þar sem þeir eru kallaðir ,,apar". Höfðað hefur verið mál og þess krafist að platan verði bönnuð, að sögn Guardian.
Wehbe, sem er 35 ára, var áður módel og er bæði leikkkona og söngkona. Hún hefur fengið mörg verðlaun fyrir plötur sinar og einnig verið kosin ein af fegurstu konum heims en veldur oft írafári meðal heittrúaðra múslíma vegna ögrandi og kynæsandi klæðaburðar.
Núbíumennirnir egypsku eru ævareiðir og segja að Wehbe sýni þeim gróft misrétti með laginu. Börn þeirra þori ekki lengur að fara í skólann af ótta við einelti. Menning Núbíumanna er ein sú elsta í álfunni en þrátt fyrir það er þeim oft mismunað í Egyptalandi.