Konur mega strangt til tekið ekki ganga í buxum í París. Komið hefur í ljós að sögn Jyllandsposten að reglur sem settar voru árið 1800 af lögreglustjóra Parísar innihalda meðal annars ákvæði af þessu tagi og reglurnar eru enn í gildi.
Tekið er fram að vilji konur ganga í sams konar fötum og karlar verði þær að fá til þess leyfi hjá lögreglunni. Nokkuð var slakað á reglunum 1892, þá var konum leyft að vera í buxum ef þær voru á hestbaki og 1909 fengu þær að nota slíka flík ef þær voru á reiðhjóli. En margar tilraunir til að fá reglurnar afnumdar með öllu hafa ávallt runnið út í sandinn.
1969 bað borgarstjórnin þáverandi lögreglustjóra um að fleygja reglununum í ruslafötuna. En hann neitaði. ,,Það er ekki skynsamlegt að breyta textanum þar sem bæði fyrirsjáanlegar og ófyrirsjáanlegar breytingar geta orðið á tískunni," sagði hann. Athygli hefur verið vakin á því að allar konur í Parísarlögreglunni brjóta reglurnar, þær ganga í buxum.