Leikhúsgagnrýnendur í Bretlandi hafa oft fengið á baukinn, stjórnandi breska Þjóðleikhússins, Nicholas Hytner, kallaði þá einu sinni ,,dauða, hvíta karla". En nú eru þeir sakaðir um að hafa dæmt leikrit þótt þeir hafi í reynd verið sjóðdrukknir eftir fjögurra klukkustunda veisluhöld, að sögn Guardian.
Leikskáldið Timberlake Wertenbaker fullyrti í dag að gagnrýendru sem mættu á frumsýningu verks hennar, The Line, í Arcola-leikhúsinu í London á mánudag hafi verið svo ölvaðir eftir afar vel útilátinn miðdegisverð í tilefni af verðlaunaveitingu að þeir hafi verið alls ófærir um að sinna starfi sínu. Dómarnir voru misjafnir. Michael Billington hjá Guardian gaf verkinu aðeins þrjár stjörnur en Quentin Letts hjá Daily Mail sagðist hafa haft nokkuð gaman af því.
Wertenbaker segir að í veislunni, sem blaðið Evening Standard hélt í Royal Opera House, hafi fyrst verið um að ræða móttöku með kampavíni, síðan tók við miðdegisverður með eins miklu víni og menn gátu í sig látið.