Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods segir, að umferðaróhappið, sem hann lenti í aðfaranótt föstudags, hafi verið sér að kenna. Segir hann að Elin Nordegren, eiginkona hans, hafi brugðist við af hugrekki og aðstoðað hann þegar hún sá að hann hafði meiðst.
Sérkennilegt óhapp, sem Woods lenti í hefur vakið heimsathygli. Woods bakkaði nýjum Cadillac jeppa á brunahana og ók síðan á tré. Nordegren braut afturrúðu bílsins með golfkylfu og náði manni sínum út úr bílnum.
Lögregla hefur ekki enn getað yfirheyrt Woods en til stendur að lögreglumenn ræði við hann í kvöld á heimili hans skammt frá Orlando á Flórída.
Í yfirlýsingu, sem birtist á heimasíðu Woods í kvöld, segist hann hafa fengið skrámur og marbletti. Óhappið sé sér að kenna og málið vandræðalegt fyrir hann og fjölskyldu hans „Ég er mannlegur og ekki fullkominn. Ég mun að sjálfsögðu tryggja að svona lagað gerist ekki aftur," sagir Woods.
Hann segir einnig að um sé að ræða einkamál. Þótt hann skilji að fólk vilji vita hvað gerðist sé sá orðrómur, sem nú sé á sveimi í tengslum við hann og fjölskyldu hans óábyrgur.
Fjölmiðlar hafa um helgina sagt að þau Woods og Nordegren hafi lent í deilum vegna blaðafregna um meint samband Woods við Rachel Uchitel, 34 ára gamla konu sem starfar á næturklúbbi í New York. Hafi Woods lagt á flótta í bíl sínum en Nordegreen hafi elt bílinn með reidda golfkylfu og barið bílinn utan með kylfunni. Í kjölfarið hafi Woods ekið á brunahana og tré.