Dóttir einnar ríkustu konu Evrópu, sem á snyrtivörufyrirtækið L'Oreal, hefur óskað eftir því að dómstóll meini móður hennar að gefa burt fjármuni sína. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Francoise Bettencourt-Meyers heldur því fram að 87 ára gamalli móður hennar, Liliane Bettencourt, sé ekki lengur sjálfrátt eftir að hún gaf einn milljarð evra, eða sem samsvarar tæpum 184 milljörðum íslenskra króna, til vinar síns.
Málið hefur þegar verið dómtekið fyrir dómstóli í París og er þar farið fram á að fjárráð Bettencourt heyri undir dómsvald. Liliane Bettencourt hafnar ásökunum dóttur sinnar þess efnis að hún hafi verið blekkt af svikahrappi.
Hún segist hafa verið með fullum sönsum þegar hún ákvað að gefa hinum 62 ára gamla ljósmyndara, Francois-Marie Banier, bæði fjármuni og gjafir að fyrrgreindri upphæð á löngu tímabili.
Lögmaður dótturinnar, Olivier Metzner, heldur því fram að hún vilji aðeins vernda móður sína gegn ófyrirleitnu fólki sem vilji misnota hana.
Lögmaður móðurinnar vísar þessu á bug og ásakar dótturina um að reyna að ná yfirráðum yfir fjárráðum móður sinnar. Samkvæmt heimildum talast mæðgurnar ekki lengur við.
Að mati Forbes er Liliane Bettencourt númer 21. á lista yfir ríkasta fólk í heimi. Auðæfi hennar eru metin á 13 milljarða evra, eða sem samsvarar 2.400 milljörðum íslenskra króna, og skýrast þau fyrst og fremst af því að hún á 30% hlut í snyrtivörufyrirtækinu L'Oreal.
Francoise Bettencourt-Meyers hefur kært Francois-Marie Banier fyrir fjárkúgun sem hann á að hafa beitt móður hennar. Það mál verður dómtekið í næstu viku. Banier neitar að tjá sig við fjölmiðla um málið.
„Við höfum þegar gripið til aðgerða gegn glæpamanninum og nú erum við að reyna að vernda fjármuni móður umbjóðanda míns með því að sýna að hún er ekkert annað en fórnarlamb,“ segir Metzner.
Liliane Bettencourt neitaði því í viðtali fyrir ári að Banier, sem verið hefur vinur hennar áratugum saman, hafi misnotað hana með einhverjum hætti. „Dóttir mín verður að gera sér grein fyrir því að ég er frjáls kona.“