Paul McCartney ávarpaði Evrópuþingið í Brussel í dag en hann stendur um þessar mundir fyrir herferð fyrir því að fólk sleppi því að borða kjöt einn dag í viku. Sagði McCartney, að það væri ekki síður í valdi einstaklinga en stjórnvalda að draga úr hlýnun andrúmsloftsins.
„Þegar ég var að alast upp var aldrei borðað kjöt á föstudögum," sagði McCartney við blaðamenn í Brussel. „Það var hluti af reglunum í skólanum mínum."
McCartney átti fund með Rajendra K. Pachauri, yfirmanni loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, og lagði þar áherslu á að mikið af gróðurhúsalofttegundum losni út í andrúmsloftið við kjötframleiðslu. Sagði hanan, að matvælaframleiðsla bæri ábyrgð á 20-30% af allri losun gróðurhúsalofttegunda en um helmingur stafar frá búfénaði.
McCartney viðurkenndi, að hann hefði stuðlað að hlýnun jarðar með því að fljúga frá Lundúnum til Brussel og þaðan áfram til Berlínar þar sem hann mun halda tónleika í kvöld.
„Það hafa ekki verið fundnir upp hljóðnemar sem eru knúnir með kertaljósi," sagði hann. „Ég geri það sem ég get. Ef ég nota bíla nota ég aðeins vistvæna bíla. Ég endurvinn."
Pachauri bar lof á McCartney fyrir framtakið og sagði, að það gerði verkefni ríkisstjórna auðveldara.