Hin mjög svo ágæta poppsveit Á móti sól hyggst taka sér frí frá störfum um næstu áramót. Mun fríið standa fram á næsta sumar, a.m.k. Þetta staðfestir Heimir Eyvindarson, hinn geðþekki hljómborðsleikari sveitarinnar.
„Hljómsveitin hefur aldrei tekið sér frí á ferlinum,“ segir Heimir. „Það hefur alltaf verið eitthvað um spilirí, meira að segja þegar Magni skellti sér í Rockstar hérna um árið. Þá áttum við þrjú gigg sem ekki var hægt að fella niður og Ingó Veðurguð hljóp í skarðið.“
Heimir segir að fríið verði a.m.k. fram á sumar en þeir félagar áskilji sér þó rétt til að skipta um skoðun með engum fyrirvara.
Nánar í Morgunblaðinu í dag.