Indverska prinsessan Leoncie hefur gefið frá sér nýja plötu, Wild American Sheriff. Platan er sú sjötta sem Leoncie gefur út og verður seld í verslun 12 Tóna við Skólavörðustíg.
Leoncie hefur lítið látið fyrir sér fara síðan hún flutti af landi brott ásamt eiginmanni sínum árið 2004. Að undanförnu hafa þau verið búsett í Bretlandi þar sem Leoncie vinnur að tónlist sinni. Uppskera undanfarinna missera er nú komin á plast. Öll lög og textar eru eftir söngkonuna sjálfa auk þess sem hún sér um hljóðfæraleik, upptökustjórn og hönnun umslags.
Samkvæmt því sem kemur fram um Leoncie á Wikipedia er hún fædd í Góahéraði á Indlandi. Hún hefur búið í Kanada og í Kópavogi og Sandgerði á Íslandi. Leoncie er kaþólsk og segist fá innblástur við bænir. Meðal hennar vinsælustu laga má nefna Ást á pöbbnum, Ástin og Wrestler.