Sir Paul McCartney segir að það yrði nokkuð fyndið ef bandaríska rokkhljómsveitin Rage Against The Machine myndi ná toppsæti breska smáskífulistans um jólin á kostnað Joe McElderry, sem er nýkrýndur sigurvegari skemmtiþáttarins X Factor.
McCartney kom fram í lokaþætti þáttarins um síðustu helgi. Hann segir í samtali við fréttastöðina Sky að ef Rage muni standa uppi sem sigurvegari þá muni það koma ákveðnum skilaboðum á framfæri.
Skv. nýjustu sölutölum eru fleiri eintök að seljast af laginu „Killing In The Name“, sem Rage Against The Machine gaf út árið 1992, heldur en af smáskífu McElderry „The Climb“.
Söngvarinn er 18 ára gamall og var krýndur sigurvegari þáttarins, sem er sýndur á ITV1, sl. sunnudag.
Búið er að stofna hóp á Facebook sem hefur það markmið að koma Rage á toppinn. Hundruð þúsunda hafa skráð sig á síðuna.
„Allir búast við að Joe geti þetta,“ McCartney. „Ef hann nær á toppinn, þá óska ég honum góðs gengis. Hann er bara einhver strákur sem á feril sinn framundan. Ég hef ekkert á móti því, en það myndi vera nokkuð fyndið ef Rage Against The Machine næði þessu því það myndi koma ákveðnum skilaboðum á framfæri.“
Simon Cowell, sem er dómari í X Factor, hefur gagnrýnt herferðina á Facebook. McElderry segir hins vegar í samtali við BBC að hann taki þessu ekki persónulega. „Ég lít ekki á þetta sem persónulega árás, því ef einhver annar hefði unnið þá hefði það sama verið uppi á teningnum,“ segir hann.
„Þessu er frekar beint gegn X Factor heldur en sigurvegaranum. Ég yrði fyrir vonbrigðum næði ég ekki efsta sætinu, en þetta er úr mínum höndum og það er ekkert sem ég get gert. Og ég vona bara að fólk styðji okkur og kaupi smáskífuna.“
Þá viðurkennir McElderry að hann hafi aldrei heyrt „Killing In The Name“.
Niðurstaða jólasmáskífubaráttunnar miklu mun liggja fyrir næsta sunnudag.