Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hringdi í útvarpsþátt, þar sem ríkisstjóri Virginíuríkis sat fyrir svörum, og kvartaði yfir umferðinni í norðurhluta ríkisins.
Tim Kaine, ríkisstjóri, sem er einn af helstu stuðningsmönnum forsetans, tók þátt í mánaðarlegum þætti á WTOP útvarpsstöðinni þar sem hann svaraði spurningum frá hlustendum. Þegar 13 mínútur voru liðnar af þættinum tilkynnti stjórnandi þáttarins að næsti hlustandi héti Barry og væri frá Washington.
„Kaine ríkisstjóri, þetta er raunar Bandaríkjaforseti, sem er að hringja," sagði Obama. „Je minn eini," sagði Kane þá. „Ég vil kvarta yfir umferðinni í Norður-Virginíu," sagði Obama. „Frekar en að fjalla um það vil ég segja hvað við erum stolt af verkum þínum," sagði ríkisstjórinn þá.
Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, sagði að hafi forsetinn kynnt sig sem Barry þegar hann hringdi í útvarpsstöðina hafi það verið vegna þess að hann vildi koma Kane á óvart.