Írsku rokkararnir í U2 stefna á senda frá sér þrettándu hljóðversskífuna í júní eða um það leyti sem risatúr þeirra rennur af stað á ný. Bono staðfesti þetta í samtali við írskt dagblað.
Bono ræðir árið framundan í viðtali við dagblaðið Irish Independent en þar segir hann sveitina hafa unnið að nýju efni síðustu vikurnar fyrir jól.
Hann gefur ekki mikið uppi um plötuna en ætla má að þar verði meðal annars að finna lög sem gerð voru drög að við vinnslu síðustu skífu sveitarinnar, No Line on the Horizon. En fjórmenningarnir eru sagðir hafa lagt drög að annarri plötu, Songs of Ascent, er þeir tóku upp nýjustu afurð sína.
Þangað til geta aðdáendur sveitarinnar gætt sér á Artificial Horizon, skífu með endurhljóðblönduðu efni sem aðeins er aðgengileg klúbbmeðlimum bandsins.
Tekjuhæsta hljómleikaferð sögunnar
Árið sem nú er að líða hefur verið viðburðaríkt hjá Írunum. Hljómleikaferð þeirra, 360 tour, er í þann mun að verða tekjuhæsta tónleikaferð sögunnar.
Þannig áætlar framkvæmdastjóri bandsins, Paul McGuinness, að tekjurnar verði um 750 milljónir dala þegar upp er staðið en til samanburðar skilaði annar tekjuhæsti túrinn, A Bigger Bang með Rolling Stones, um 590 milljónum dala í kassann á núverandi gengi.
Platan No Line on the Horizon fékk öllu hófstilltari viðtökur en hún hefur aðeins selst í um fjórum milljónum eintaka á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá því að hún kom út.
Gagnrýnendur eru yfirleitt ánægðir með verkið og má nefna að No Line on the Horizon var valin plata ársins hjá tónlistartímaritinu Rolling Stone, auk þess að vera tilnefnd til Grammy verðlauna.