Þrjár lítið þekktar dökkhærðar söngkonur og tveir kunnir karlkyns söngvarar taka þátt í fyrsta undanúrslitakvöldi Söngvakeppni Sjónvarpsins í kvöld. Tvö lög af þeim fimm sem keppa í kvöld komast áfram í úrslitaþáttinn sem fer fram 6. febrúar og eru það áhorfendur sem velja þau með símakosningu. Næstu undanúrslitaþættir fara fram 16. og 23. janúar.
Lögin fimm sem taka þátt í kvöld eru öll sungin á ensku og fjalla yfirleitt um ástina eða annað álíka fallegt.
Eftir: Bryndísi Sunnu Valdimarsdóttur og Daða Georgsson
Flytjandi: Karen Pálsdóttir
Það er alþjóðleg stemning í þessu ágæta popplagi og kæmi ekki á óvart að magadansarar yrðu á sviðinu með söngkonunni ungu. Lagið virkar ágætlega við fyrstu hlustun en svipar mjög til 50% af Evróvisjónlögum undanfarin ár. Ekki nógu afgerandi til að fleyta Íslandi áfram.
Eftir: Jóhannes Kára Kristinsson
Flytjandi: Sigurjón Brink
„Hvort er ég að hlusta á Cat Stevens eða lag úr Disney-teiknimynd?“ var það sem ég spurði mig að þegar ég heyrði þetta lag í fyrsta skipti. Þetta er falleg ballaða en ég veit það ekki, megum við við því að vera svona væmin í þessu árferði?
Eftir: Matthías Stefánsson og Matthías Matthíasson
Flytjandi: Matthías Matthíasson Gat verið, fiðluleikur. Það verður örugglega nokkuð um hann í ár og næstu ár, allir ætla að nota sama trixið og Norsarinn sem sigraði í fyrra. Ég veit ekki hvort það virkar aftur, frekar en tunnutrommurnar sem voru ofnotaðar eftir sigur Ruslönu.
„Out Of Sight“ er stuðað þjóðlagapopp með rokktöktum í söng og leik. Hreif mig ekki en misjafn er smekkur manna sem betur fer.
Eftir: Birgi Jóhann Birgisson og Ingva Þór Kormáksson
Flytjandi: Íris Hólm
Falleg píanóballaða í söngleikjastíl. Svolítið eins og breska lagið frá því í fyrra eftir Andrew Lloyd Webber. Vantar samt eitthvað í það svo það geti fetað í fótspor Webber eða „Is It True“.
Eftir: Harald G. Ásmundsson og Kolbrúnu Evu Viktorsdóttur
Flytjandi: Kolbrún Eva Viktorsdóttir
Norah Jones og Avril Lavigne bönkuðu upp á í hausnum á mér þegar ég heyrði þetta lag fyrst. Eitthvað við það greip mig þó strax, enda hin myndarlegasta powerballaða hér á ferð. En ég veit ekki hvort það á heima í úrslitakeppni Evróvisjón frekar en hin lögin sem taka þátt í kvöld.