Breski sjónvarpsmaðurinn Simon Cowell tilkynnti í kvöld, að hann muni hætta sem dómari í American Idol sjónvarpsþáttunum eftir 10. þáttaröðina, sem hefst á morgun og ætli þess í stað að stýra bandarískri útgáfu af breska hæfileikaþættinum The X Factor.
Cowell sagði við blaðamenn að hann hafi samið um að The X Factor hefji göngu sína í Fox sjónvarpsstöðinni snemma á næsta ári. Fyrri samningur Cowells við stöðina kom í veg fyrir að hann gæti stýrt The X Factor í bandarísku sjónvarpi á meðan hann væri dómari í Idol þáttunum.
The X Factor hóf göngu sína í Bretlandi árið 2004 og hefur síðan verið tekinn upp í sextán öðrum löndum, þar á meðal á Íslandi. Það sem greinir hann frá Idol-þáttunum er að aldurstakmarkið er lægra, 14 ár, og ekkert aldurshámark er.
Þegar Cowell var spurður hver gæti tekið sæti hans í American Idol svaraði hann: Bara einhver sem veit hvað hann er að tala um.