Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors segir, að samkomulag fyrirtækisins við kylfinginn Tiger Woods, sem fól það í sér að Woods fékk að nota bíla án endurgjalds, sé ekki lengur í gildi.
Auglýsingasamningur, sem Woods gerði við GM um að auglýsa Buick bíla rann út árið 2008 en áfram var í gildi samningur um að Woods fengi ókeypis afnot af bílum frá GM. Talsmaður fyrirtækisins segir, að sá samningur hafi runnið út um áramótin.
Margir styrktaraðilar Woods hafa lagt á flótta eftir að hann lenti í dularfullu umferðarslysi utan við heimili sitt 27. nóvember. Í kjölfarið kom í ljós, að einkalíf kylfingsins hafði verið býsna skrautlegt og á annan tug kvenna kom fram og sagðist hafa átt vingott við hann.
Meðal annars hafa svissneski úraframleiðandinn Tag Heuger og rakvélaframleiðandinn Gillette hætt að styrkja Woods. Íþróttavörframleiðandinn Nike, sem greiðir Woods 40 milljónir á ári, hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við hann og tölvuleikjaframleiðandinn Electronic Arts ætlar að halda fast við áform um að setja á markað netleik með Woods í aðalhlutverki.