Skoppa og Skrítla í útrás til Bandaríkjanna

Skoppa og Skrítla vekja kátínu barna.
Skoppa og Skrítla vekja kátínu barna. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Þetta er eins og hver annar happdrættisvinningur að þetta fólk hafi áhuga á að vinna með manni. Því þetta fólk fær fjölda tilboða í hverri viku,“ segir Hrefna Hallgrímsdóttir, sem ásamt Lindu Ásgeirsdóttur stendur að baki tvíeykinu Skoppu og Skrítlu.

Þær hafa nú ráðið til sín fyrrum forstjóra hjá Warner Brothers sem listrænan stjórnanda að verkefni sínu í Bandaríkjunum. Með þessu hefja þær, að sögn Hrefnu, markaðssókn sína í Bandaríkjunum á sama tíma og þær frumsýna nýtt leikrit hér heima.

Að sögn Hrefnu eru fjárfestar nú þegar komnir inn í verkefnið og vinna við þróun nýrra tækifæra sem þegar er komin á skrið. Settur hefur verið saman hópur sérfræðinga í Los Angeles til að annast þróun á alþjóðaútgáfu byggðri á íslensku útgáfunni á Skoppu og Skrítlu. Auk Hrefnu og Lindu fara fyrir hópnum þeir Steve Lyons, sem er fyrrum Senior Executive hjá Sony Pictures, og Freyr Thor forstjóri Vanguard Cinema.

Hrefna og Linda dvöldu ytra í síðustu viku og gengu frá ráðningu listræns stjórnanda, John Hardman, sem er reyndur maður í bransanum, og Brendu Wooding sem verður alþjóðlegur sölustjóri.  John er fyrrum Vice President of programming hjá Warner Brother Kids Division og Brenda er vel þekkt fyrir þróun og dreifingu barnaefnis á alþjóðavettvangi.

Hrefna segir hópinn væntanlegan til Íslands í næsta mánuði til að fylgjast með nýjustu leiksýningu Skoppu og Skrítlu sem frumsýnd verður í Borgarleikhúsinu 6. febrúar nk. Sýningin nefnist Skoppa og Skrítla á tímaflakki.
 
Að sögn Hrefnu hafa þær, í samvinnu við fleiri aðila, síðan í fyrra undirbúið farveginn að því að koma Skoppu og  Skrítlu á markað í Bandaríkjunum. „Það virðist vera að fólk heillist af þessu konsepti í heild sinni,“ segir Hrefna og tekur fram að það komi verkefninu til góða að hafa verið í þróun sl. sex ár hér heima. „Við erum hér á Íslandi búnar að gera svo margt, alla þessa þætti fyrir sjónvarp, leiksýningarnar og svo bíómyndina. Þannig að þetta er eitthvað sem er búið að prófa á börnum og gefist hefur vel.“

Að mati Hrefnu hjálpaði það verkefni að taka kvikmyndina um vinkonurnar upp bæði á íslensku og ensku. „Við erum byrjuð að vinna með John Hardman að því að hefja framleiðslu á nýjum þáttum og nýjum leikritum byggt á því sem við höfum verið að gera hér,“ segir Hrefna. Spurð hvort þær Linda muni áfram fara með hlutverk Skoppu og Skrítlu á Bandaríkjamarkaði svarar Hrefna því játandi. „Við erum alveg gulltryggðar með það.“

Hrefna segir að verði farið í framleiðslu á nýjum þáttum um Skoppu og Skrítlu fyrir Bandaríkjamarkað þá sé stefnt að því að það verði gert hérlendis. „Við viljum taka þetta allt til Íslands og nota allt þetta frábæra fólk á Íslandi til að vinna þetta efni með okkur og skapa vonandi fullt af vinnu fyrir Íslendinga.“

Sýningin Skoppa og Skrítla á tímaflakki sem frumsýnd verður í næsta mánuði er þriðja leikrit þeirra vinkvenna. Fyrri tvær leiksýningar Skoppu og Skrýtlu voru sýndar í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu og fengu góða aðsókn og voru báðar tilnefndar til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna.

Í nýja verkinu, líkt og þeim fyrri, hitta þær stöllur ýmsa kynlega kvisti og nú verða þær í fylgd með vinum sínum á sviðinu, þeim Lúsí og Bakara Svakara, ásamt þremur ungum dönsurum.

Hallur Ingólfsson semur tónlist, Þórdís Jóhannesdóttir hannar leikmynd, Una Stígsdóttir gerir búninga og leikstjóri að þessu sinni er Gunnar Helgason. Söngur, dans og skemmtun fyrir alla fjölskylduna og ekki síst fyrir allra minnstu stubbana.
 
Spurð um næstu skref segir Hrefna ljóst að þær Linda verði bundnar við að sýna leikritið um helgar, en verði þess á milli væntanlega á talsverðu flakkinu milli Íslands og Bandaríkjanna meðan þróunarvinnan fari fram og verið sé að skrifa handrit að nýju þáttunum. „Okkar veröld verður örugglega mikið í tösku næstu mánuðina.“ 


Að baki Skoppu og Skrítlu standa leikkonurnar Linda Ásgeirsdóttir og …
Að baki Skoppu og Skrítlu standa leikkonurnar Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir