Veitingamennirnir Úlfar Eysteinsson og Tómas Tómasson munu mæta í kaffi í Seðlabankann fyrir hádegi en þeir ætla að fá staðfestingu á því að peningastefnunefnd bankans hafi lækkað stýrivexti í 9,5%. Í kjölfarið verða hnífarnir mundaðir og skeggið látið fjúka, segir Úlfar í samtali við mbl.is.
Þeir félagar hafa ekki skorið skegg sitt síðan um miðjan maímánuð í fyrra og hétu því að það yrði ekki gert fyrr en stýrivextir Seðlabanka Íslands yrðu komnir niður í eins stafs tölu.
Úlfar segir daginn í dag mikinn gleðidag enda búinn að bíða lengi eftir því að stýrivextir á Íslandi nálgist það sem þeir eru í öðrum ríkjum.
Hann segir að það bærist blendnar tilfinningar með honum í dag: „Það er bæði söknuður og ánægja," segir Úlfar. „En oft veltir lítil þúfa stóru hlassi. Við erum búnir að koma stýrivöxtunum niður. Það segjum við að minnsta kosti," segir Úlfar glaður í bragði í samtali við mbl.is