Bandaríski kvikmyndaleikarinn Rip Torn var handtekinn í Connecticut í Bandaríkjunum á föstudagskvöld fyrir að reyna að fremja bankarán. Var Torn, sem er 78 ára að aldri, ákærður fyrir að vera með skotvopn án leyfis, bera byssu ölvaður, innbrot, og fleiri afbrot.
Að sögn bandarískra fjölmiðla reyndi leikarinn að brjótast inn í útibú Litchfield Bancorp í Salisbury. Þjófavörn fór af stað og lögregla handtók Torn á staðnum. Hann var þá með hlaðna skammbyssu í fórum sínum.
Rip Torn hefur nokkrum sinnum lent í kasti við lögin á síðustu árum, aðallega fyrir ölvunarakstur.
Hann hefur leikið í mörgum kunnum myndum og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir Cross Creek. Þá lék hann í myndinni Men in Black. Hann hefur einnig komið fram í sjónvarpsþáttum, þar á meðal 30 Rock.