„Þegar við heyrðum þessar ásakanir ákváðum við strax að fara faglegu leiðina, af því að við vissum að lagið var ekki stolið og vildum fá það staðfest af fagaðilum," segir Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona um lagið Je Ne Sais Quoi sem hún syngur í undankeppni Evróvisjón á Íslandi. Stef hefur nú skorið úr um að lagið sé ekki stolið.
„Þeir brjóta lagið alveg niður í frumeindir og fara yfir hvern tón og hljóm fyrir sig og bera saman við lög um höfundarétt," segir Hera sem ásamt Örlygi Smára, höfundi lagsins, vildi taka af allan vafa í hugum hlustenda áður en lokakvöldið í keppninni fer fram á morgun.
„Við erum náttúrulega bæði tónlistarmenn og lifum á þessu og það er ekki gaman að hafa þennan stimpil á sér." Sérfróðir menn á vegum Stefs komust að þeirri niðurstöðu að veigamikill munur væri á umræddum lögum og Je Ne Sais Quoi brjóti ekki á höfundarrétti.
Hera segir að þótt mörgum finnist lagið kannski hljóma eins og önnur lög í sama geira sé það eðlilegt. „Þetta er allt saman júrópopp, við endum í sömu tóntegund og svo er sami takturinn undir. Ef þetta væri blúskeppni þá væru örugglega háværar raddir því þar eru bara þrír tónar og lögin mjög keimlík."
Nú þegar þetta er frá segir Hera hægt að einbeita sér að því skemmtilega enda sé allt klappað og klárt fyrir úrslitakvöldið á morgun, sem leggst vel í hana. „Ég hlakka mjög mikið til, þetta verður stuð."