„Við gerum alveg pottþétt einhverjar breytingar, til batnaðar vonandi, en við munum ekkert umturna laginu samt," segir Hera Björk Þórhallsdóttir, sem fór með sigur af hólmi í forkeppni Sjónvarpsins fyrir Eurovision með laginu Je ne Sais Quoi.
Þetta verður í þriðja skiptið sem Hera Björk fer ytra fyrir hönd Íslands í Eurovision keppnina en í fyrsta skipti sem hún verður sjálf aðalstjarnan. „Allt er þegar þrennt er, þetta er í þriðja skiptið svo ég er vel undirbúin og núna fæ ég að standa fremst á sviðinu með vindvélina framan í mér," segir Hera og hlær.
Keppnin sjálf verður í Osló í Noregi í lok maí svo tíminn er rúmur en Hera Björk segist ekki munu slá slöku við á næstunni þótt langt sé í keppnina. „Þetta er stöðugur undirbúningur, það er í mörg horn að líta og ekkert úr vegi að byrja strax. Við búum að því að lagið er valið snemma hérna heima en keppnin er seint úti, svo við höfum nógan tíma og ætlum að nýta hann vel."
Í fyrra keppti Hera í undankeppni Eurovision í Danmörku og lenti þar í öðru sæti með lagið Someday. Hún segist hafa fengið margar góðar kveðjur frá Danmörku í dag og Noregi raunar líka. Danir og Norðmenn völdu sér einmitt líka sína kandídata til keppninnar í gær og Hera segist hafa heyrt flest skandinavísku lögin og geri ráð fyrir að fylgjast með þegar fleiri lög bætast í hópinn þegar frá líður.
„Ég er nú ekkert búin að sökkva mér í þetta ennþá en ég mun fylgjast með því ég hef gaman af þessu. Svo verður spennandi að sjá þetta í Osló því þá eru margir búnir að breyta lögunum og þá fær maður líka fyrst að sjá hvernig framkoman verður og getur lagt mat á þetta."
Hera á því spennandi tíma framunda og segist hlakka til að takast á við þetta allt saman.