Austurískur milljónamæringur hefur ákveðið að gefa allar eigur sínar eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að auðurinn gerði ekki annað en að valda honum óhamingju.
Karl Rabeder er 47 ára gamall kaupsýslumaður. Hann á stórt og glæsilegt lúxushús með útsýni yfir Alpana. Hann á einnig gamlan bóndabæ og talsvert landsvæði. Einnig á hann Audi glæsibifreið. Verðmæti eignanna hlaupa á hundruðum milljóna.
Rabeder hefur ákveðið að selja allar eigur sínar. „ Ég ætla mér að eiga ekkert, alls ekki neitt,“ sagði Rabeder í samtali við The Daily Telegraph.
„Peningar spilla og koma í veg fyrir að maður öðlist hamingju,“ sagði Rabeder. „Ég trúði því lengi vel að auður og lúxus myndi sjálfkrafa leiða til hamingju. Ég er alinn upp af mjög fátækri fjölskyldu sem fylgdi þeirri reglu að maður ætti að leggja hart að sér til að öðlast efnisleg gæði og ég fylgdi þessari reglu í mörg ár.“
Rabeder sagðist á seinni árum hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að breyta um stefnu. „Ég hafði það á tilfinningunni að ég væri að vinna eins og þræll til að eignast hluti sem mig langaði ekki í og þurfti ekki á að halda.“
Rabeder ætlar að gefa allar eigur sínar til góðgerðarfélags sem stendur fyrir smálánastarfsemi í S-Ameríku.