Stikla úr mynd Dags Kára Péturssonar, The Good Heart, er nú frumsýnd á mbl.is en kvikmyndin sjálf verður frumsýnd á Íslandi 6. mars. Myndin hefur að undanförnu verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim en hún hefur nú verið seld til sýninga í 22 löndum.
Myndin var tekin upp á Íslandi, í New York og Dómíníska lýðveldinu. Með aðalhlutverk fara Brian Cox og Paul Dano. Myndin fjallar um geðstirðan bareiganda sem hefur fimm sinnum fengið hjartaáfall. Á sjúkrahúsi hittir hann heimilslausan ungan pilt og ákveður að taka hann undir sinn verndarvæng með það fyrir augum að hann taki við rekstri barsins í fyllingu tímans.
Allt gengur að óskum þar til flugfreyja nokkur kemur inn á barinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.