Enski spennusagnahöfundurinn Dick Francis er látinn, 89 ára að aldri. Francis var einn vinsælasti rithöfundur Breta og skrifaði rúmlega 40 metsölubækur.
Francis var þekktur knapi á sínum tíma og m.a. sérlegur knapi drottningarmóðurinnar bresku á fimmta og sjötta áratugnum. Fyrsta bók hans var sjálfsævisaga, sem kom út 1957, en fyrsta skáldsöguna, Dead Cert, sendi hann frá sér fimm árum síðar.
Síðustu bækur Dick Francis voru Dead Heat og Silks, sem sonur hans, Felix, skrifaði með föður sínum.
Spennusögurnar áttu það allar sameiginlegt að sögusviðið tengdist veðreiðum eða hestamennsku af einhverju tagi.