Ekki á leiðinni í hvíta kassann

Álftagerðisbræðurnir Sigfús, Óskar, Pétur og Gísli Péturssynir.
Álftagerðisbræðurnir Sigfús, Óskar, Pétur og Gísli Péturssynir. myndJón Svavarsson

„Við erum ekkert á leiðinni í hvíta kassann," sagði Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir við upphaf tónleika þeirra bræðra í Fella- og Hólakirkju í gær, þar sem þeir tóku sér stöðu við altarið. Á þriðja hundrað manns hlýddu á en kvöldið áður voru þeir með velheppnaða tónleika í Borgarneskirkju.

Var Óskar þarna að vísa til þess að elsti bróðirinn, Sigfús, hefði tekið að sér að koma tónleikunum á framfæri við fjölmiðla og gert það með þeirri áherslu að vegna aldurs færi hver að verða síðastur að sjá þá bræður syngja saman!

Þrátt fyrir að aldursforsetinn Sigfús komist bráðum á löglegan ellilífeyrisaldur, 67 ár, sýndu hann og bræðurnir að þeir hafa sjaldan verið betri. Var gerður góður rómur að söng þeirra og undirleik Stefáns R. Gíslasonar. Í lok tónleikanna voru þeir klappaðir nokkrum sinnum upp en mörg sígild lög voru á efnisskránni, eins og Hamraborgin, Undir dalanna sól, Álftirnar kvaka og Rósin, þar sem Sigfús syngur einsöng. Fór kliður um salinn þegar það lag var kynnt. Að flutningi loknum sló Óskar á létta strengi og sagðist ekki vera frá því að bakraddirnar í laginu yrðu betri og betri með hverju skiptinu sem þeir flyttu lagið. Sigfús var þá fljótur að svara: „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi".

Fáir ef nokkrir söngkvartettar hafa sungið saman lengur samfellt hér á landi en þeir bræður frá Álftagerði, eða í bráðum 23 ár. Þeir sungu í fyrsta skipti saman opinberlega þegar faðir þeirra, Pétur Sigfússon, var jarðsunginn frá Víðimýrarkirkju í Skagafirði haustið 1987.

Gamansamir bræður

Gamansemi, ekki síður en góður söngur, er aðalsmerki bræðranna og milli laga sér Óskar, sá yngsti, aðallega um þann lið. Og af að það er nú dagur elskenda í dag, er ekki úr vegi að fara hér með eina söguna sem Óskar sagði tónleikagestum.

Sagði hann af ástföngnu pari sem var komið að því að giftast. Konan setti eitt skilyrði fyrir hnappheldunni, að maðurinn léti af öllum drykkjuskap og setti reglusemi ofar öllu. Krafðist hún þess að inn í giftingarhringinn sinn yrði áletrað nafn mannsins og fjögur heitstrengingarorð: ást, trú, virðing og reglusemi. Bóndinn játti þessu og fór til gullsmiðsins með þessi skilaboð. Gullsmiðurinn fórnaði höndum og sagðist ekki getað komið öllu þessu fyrir innan í hringnum. Stakk hann upp á því að skammstafa þetta frekar og játti maðurinn því með bros á vör.

Inn í hring konunnar fór því nafn mannsins og skammstöfunin ÁTVR!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar