Starfsmönnum útfararstofu í borginni Cali í Kólumbíu brá heldur í brún þegar lík 45 ára gamallar konu fór skyndilega að anda og hreyfa sig þegar verið var að búa það til greftrunar.
Að sögn þarlendra fjölmiðla hafði konan verið lýst látin á sjúkrahúsi eftir að hafa verið lögð þar inn daginn áður.
Miguel Angel Saavedra, læknir á sjúkrahúsinu, segir að enginn blóðþrýstingur hefði mælst og engin rafboð frá heilanum. Þess vegna var konan úrskurðuð látin og gefið út dánarvottorð. „Líkið" var síðan sent á útfararstofu.
Konan var hins vegar ekki látin heldur þjáðist af því sem læknar kalla Lasarusarheilkenninu. Saavedra segir, að þegar starfsmenn útfararstofunnar fóru að fást við konuna fór hún að anda á ný og hreyfa sig.
Hún var flutt á sjúkrahúsið að nýju og liggur þar nú í dái.