Höfðað hefur verið skaðabótamál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og eiginkonu hans, Ingibjörgu Pálmadóttur í New York fyrir að hafa innréttað eldhús íbúðar sem er í þeirra eigu með vörum frá Ikea á Gramercy Park Hotel í New York borg. Greint er frá þessu á vefnum NY Daily News.
Í fréttinni kemur fram að hjónakornin eru ásökuð um að hafa sett upp „ljótt" eldhús úr vöruhúsi í íbúð sinni í Ian Schrager byggingunni við Gramercy Park á Manhattan.
Kemur fram í fréttinni að þau Ingibjörg og Jón Ásgeir hafi greitt yfir tíu milljónir Bandaríkjadala, tæplega 1.300 milljónir króna, fyrir íbúðina árið 2007 og skömmu síðar hafi þau keypt aðra íbúð í húsinu.
Þau leigðu síðan út íbúðina en leigjendurnir eru ósáttir við það sem þeir fengu: eldhús frá Ikea sem leigjendurnir segjast skammast sín fyrir enda segir á vef hússins að bæði eldhús og baðherbergi í íbúðum í byggingunni séu sérhönnuð.
Eins hefur verið kvartað undan því að loftkælingin hafi verið biluð og sturtan hafi verið í ólagi. Sérstaklega er tekið fram að í júlí í fyrra hafi gestir leigjanda íbúðarinnar orðið fyrir því að matarleifum hafi verið kastað niður á svalir íbúðarinnar af svölum íbúðar Jóns Ásgeirs og Ingibjargar á hæðinni fyrir ofan.
Fer leigjandinn, Paramount Realty Group, fram á 52 þúsund Bandaríkjadali, tæpar 7 milljónir króna, í skaðabætur en félagið greiddi 312 þúsund dali í húsaleigu fyrir íbúðina.
Hér er hægt að lesa meira um málið