Orkudrykkjaframleiðandinn Gatorade hefur sagt upp samningi fyrirtækisins við bandaríska kylfinginn Tiger Woods. Fylgir Gatorade, sem er í eigu PepsiCo, í kjölfar AT&T og Accenture sem þegar höfðu sagt upp samningum sínum við Woods.
Tiger Woods hefur helst ratað í fjölmiðla að undanförnu fyrir að hafa verið eiginkonu sinni ótrúr.
Hann hélt blaðamannafund á Flórída í Bandaríkjunum nýverið. Þar bað hann afsökunar á framferði sínu og kallaði það sjálfselsku.
„Ég var ótrúr. Ég átti í ástarsamböndum. Ég hélt framhjá. Það sem ég gerði var óviðunandi" sagði Woods. „Ég særði eiginkonu mína, börnin mín, móður mína, fjölskyldu konu minnar, vini mína, stofnunina mína og krakka um allan heim sem dáðust að mér."