Handtekinn tvisvar

Páll Stefánsson ljósmyndari var tvisvar handtekinn í Azerbaidjan.
Páll Stefánsson ljósmyndari var tvisvar handtekinn í Azerbaidjan. Einar Falur Ingólfsson

Páll Stefánsson ljósmyndari var handtekinn tvívegis þegar hann var nýlega að mynda í borginni Sumqayit í Azerbaidjan. Páll vinnur að gerð ljósmyndabókar um tíu menguðustu staði veraldar og mannlíf þar. Sumqayit nýtur þess vafasama heiðurs að prýða þann lista.

Páll fór til Sumqayit á fimmtudag í síðustu viku. Hann segir að Sovétmenn hafi flutt mikið af þungaiðnaði austur á bóginn eftir síðari heimsstyrjöldina. Olíulindir eru í Azerbaidjan og þangað var flutt mikið af efnaiðnaði. Borgin Sumqayit varð til í kringum slíkan verksmiðjurekstur. Þar búa nú álíka margir og á öllu Íslandi.

„Þetta er viðbjóður“

„Þetta er viðbjóður,“ sagði Páll um ástandið í Sumqayit. Hann segir að efnaiðnaðurinn hafi valdið mikilli mengun sem hvíli eins og gráleit mara yfir öllu. Í bænum eru einungis tvö hótel og á því sem Páll gisti taldi hann sig hafa verið eina gestinn. Þetta er ekki beint ferðamannaparadís.

Páll kvaðst hafa fengið vegabréfsáritun sem ljósmyndari og ekki farið leynt með tilgang ferðarinnar. Hann tekur myndirnar á stóra myndavél með 6x8 þumlunga filmu. Vélin stendur á tröllslegum þrífæti svo hann á bágt með að fara dult með iðju sína.

„Ég fann að ég vakti athygli þarna í iðnaðarhverfinu,“ sagði Páll. „Það endaði með því að ég var færður á lögreglustöð og lenti í þriggja tíma yfirheyrslu.

Þeir tala almennt ekki sömu mál og ég ræð við. Loks fannst aldraður þýskukennari til að túlka. Ég reyndi að útskýra á minni menntaskólaþýsku að ég væri bara að mynda manninn gegn náttúrunni. Var ekkert að útskýra þetta með bókina,“ sagði Páll.

„Ég var með alla pappíra í lagi svo þeir höfðu ekkert á mig. Það endaði með því að þeir slepptu mér. Eftir það var óþægilegt að mynda. Ég sá alltaf sömu Volgurnar og Moskóvítsjana á eftir mér. Þeir voru að fylgjast með því hvað ég var að gera.“

„Þú ert í vondum málum“

Á þriðjudag ætlaði Páll að snúa aftur heim og fljúga til London síðdegis. Um morguninn ákvað hann að taka myndir af trjám í næsta nágrenni við hótelið sem hann gisti á. Trén voru vindbarin og skekin eftir storma af Kaspíahafi. 

„Það skipti engum togum að það komu níu vopnaðir menn á þremur bílum, þar af tveimur ómerktum, og handtóku mig þar sem ég stóð við trén,“ sagði Páll. „Þetta var eins og í bíómynd. Ég áttaði mig því á að þetta var undirbúin aðgerð.“

Páll fékk að hringja í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.  Sendiráð Íslands í Moskvu hringdi strax til baka og þar var rússneskumælandi túlkur í símanum. Lögreglumennirnir vildu hins vegar ekkert við sendiráðið tala og færðu Pál á lögreglustöð. Páll gat þó látið vita á hvaða lögreglustöð hann yrði færður.

„Þar kom túlkur og byrjaði á að segja: Þú ert i vondum málum,“ segir Páll. Túlkurinn, sem var háöldruð enskumælandi kona, sagði að lögreglan ætlaði að gera upptækan allan búnað hans og filmur.

„Þeir yfirheyrðu mig og spurðu stöðugt hvað ég væri að gera. Ég svaraði því að ég væri að taka myndir,“ sagði Páll. Hann segir að lögreglumennirnir hafi augljóslega talið að vera hans í borginni væri meira en lítið grunsamleg. 

„Þar sem þeir voru að yfirheyra mig og hóta því að gera búnaðinn upptækan fékk dularfullur maður í yfirheyrsluherberginu símtal. Mér skildist að það hafi verið frá utanríkisráðuneyti þeirra Azera. Líklega hefur utanríkisráðuneytið hér eða sendiráðið í Moskvu haft samband við utanríkisráðuneyti Azerbaidjan. 

Meðan á samtalinu stóð hvíslaði túlkurinn að mér: Þetta leysist,“ sagði Páll.

Skyndilega var yfirheyrslunni lokið. Páli var skilað vegabréfinu sínu, sem hafði verið tekið og fékk allan sinn búnað áður en honum var ekið til baka orðalaust. 

„Þeir kvöddu mig ekki einu sinni með handabandi,“ sagði Páll. Hann komst svo óáreittur úr landinu síðar um daginn.

„Ekkert umhverfisklám“

Páll kveðst hafa ferðast til meira en 100 landa til að taka myndir. Þetta er í fyrsta skipti sem hann hefur verið handtekinn.  Ekki einu sinni á viðsjárverðum tímum í Rússlandi eða í Austur-Þýskalandi kommúnismans var hann tekinn til yfirheyrslu.

Sumqayit er annar staðurinn sem Páll heimsækir vegna verkefnisins. Hann heimsótti La Oroya í Perú í lok síðasta árs. Hann kveðst leggja áherslu á mannlífið á þessum menguðu stöðum en ekki ljótleikann sem mengunin veldur. „Þetta verður ekkert umhverfisklám,“ sagði Páll. Bókin er ætluð á alþjóðlegan markað.

Listi yfir tíu menguðustu staði heimsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson