Kara DioGuardi, einn af dómurum American Idol, segir að ákvörðun hennar um að koma fram á baðfötum í úrslitaþættinum í fyrra, hafi breytt ferli hennar. DioGuardi steig þá á svið og tók lagið með stúlku sem hafði mætt á baðfötunum í prufu fyrir þáttinn og vakti uppátækið mikla athygli.
„Þetta bjargaði líklega starfinu. Þarna sá fólk að mér var alvara, en jafnframt að ég væri jafn klikkuð og hinir í dómnefndinni,“ segir DioGuardi í viðtali við tímaritið Women's Health. Hún segist hins vegar í fyrstu hafa verið treg til að rífa sig úr kjólnum.
„Ég þvertók fyrir þetta í byrjun. Hvaða brjálæðingur ætlar að mæta á baðfötum, næstum fertug að aldri, á móti tvítugri stúlku sem er í þokkabót örugglega búin að gangast undir fegrunaraðgerðir. En hey, að minnsta kosti pissaði ég ekki á mig,“ segir DioGuardi.