Frönsku leikkonunni Marion Cotillard brá að vonum í brún í gær þegar Frederic Mitterrand, menningarmálaráðherra Frakklands, sæmdi hana orðu fyrir framlag sitt til franskrar menningar. Ráðherrann ætlaði að næla orðunni í barm Cotrillard en fórst það óhönduglega og stakk prjóninum í leikkonuna.
Cotrillard hrópaði upp yfir sig og Mitterrand, sem brá einnig, reyndi að hugga kvikmyndastjörnuna, sem fékk Óskarsverðlaun árið 2008 fyrir að leika Edith Piaf í myndinni La Vie En Rose.
Leikkonan var fljót að jafna sig og sló á létta strengi eftir að Mitterand hafði loks tekist að hengja Chevalier de l'Ordre des Arts et des Lettres orðuna á hana.
Mitterand heiðraði einnig bandaríska leikstjórann Tim Burton, sem verður formaður dómnefndar kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í maí. Nýjasta mynd hans, Lísa í Undralandi, verður frumsýnd í Frakklandi í næstu viku.