Hljómsveitin Of Monsters and Men fór með sigur af hólmi í Músiktilraunum, sem lauk í Listasafni Reykjavíkur í kvöld. Sveitin Vulgate varð í 2. sæti og The Assassin of a Beautiful Brunette í því þriðja.
Of Monsters and Men er tríó skipað þeim Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur, gítarleikara og söngkonu, Ragnari Þórhallssyni, söngvara og melódíku- og klukkuspilsleikara, og Brynjari Leifsson, gítar-, klukkuspils- og melódíkuleikara. Sveitin spilar draumkennda folk-tónlist með poppuðu yfirbragði.
Vulgate skipa söngvarinn Andri Kjartan Jakobsson, Samúel Örn Böðvarsson bassaleikari, Hjalti Þór Kristjánsson trommuleikari og gítarleikararnir Ólafur Einar Þorbergsson og Rúnar Örn Grétarsson.
Sveitin The Assassin of a Beautiful Brunette var einnig valin hljómsveit kvöldsins í símakosningu. Hún er frá Selfossi og hana skipa Fannar Freyr Magnússon, gítarleikari og söngvari, Alexander Freyr Olgeirsson, gítarleikari og söngvari, Sigurgeir Skafti Flosason, bassaleikari, Daníel Haukur Arnarsson, söngvari, og Skúli Gíslason, trommuleikari. Þeir eru um tvítugt og spila tónlist sem þeir lýsa sem tilfinningum og tjáningu.