Bandaríski sjónvarpsleikarinn Charlie Sheen mun ekki snúa aftur á skjáinn sem glaumgosinn Charlie Harper í þáttunum um tvo og hálfan mann (e. Two and a half men) eftir að sjöundu þáttarröð lýkur. Samningar náðust ekki við Sheen sem samkvæmt heimildum fær um 100 milljónir króna fyrir hvern þátt.
Sheen hefur verið mikið í kastljósinu að undanförnu. Bæði hefur gamanþátturinn Two and half men verið geysivinsæll vestanhafs og einkalíf leikarans verið milli tannanna á fólki. Hæst bar handtaka seint á síðasta ári en Sheen er grunaður um að hafa haft hendur á eiginkonu sína Brooke Mueller.
Í kjölfar handtökunnar var Sheen skikkaður í meðferð vegna lyfja- og áfengisfíknar. Hann dvelur raunar á meðferðarheimili og fer aðeins út til að leika í þáttunum. Upptökum á sjöundu þáttarröð lýkur 9. apríl næstkomandi.